 Ávarp Guðna A. Jóhannessonar formanns LAFÍ flutt á 25 ára afmælishátíð Lagnafélags Íslands 7. október 2011.
Forseti Íslands Herra Ólafur Ragnar Grímsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, lagnamenn og aðrir góðir gestir. Ákaflega velkomin til þessarar hátíðar þar sem við fögnum saman 25 árs afmæli Lagnafélagsins með fjöbreyttri dagskrá. Við horfum yfir farinn veg, tökum stöðuna á þeim málum sem efst eru á baugi og lítum til framtíðar.
Ég var svo lánsamur að vera með frá byrjun við stofnun Lagnafélagsins. Samstarf okkar Kristjáns Ottóssonar hafði þá staðið í nokkur ár þar sem ég kom að því með honum að greina orsakir þess að lagnakerfi virkuðu ekki sem skyldi og byggja upp þekkingu sem varð stofninn að námskeiðum sem haldin voru fyrir mismunandi hópa í Reykjavík og úti á landi. Þótt ég hafi síðan vegna starfa minna erlendis hafi verið í burtu nærri tvo áratugi og þannig orðið vík milli vina hefur Kristján samt aldrei sleppt takinu og litið á mig sem liðsmann þegar á þurfti að halda.
Lagnafélagið er sprottið úr þörfinni fyrir þverfaglega nálgun. Það var frá upphafi ljóst að þótt mismunandi fagaðilar væru að vinna sín verk eftir teikningum og forskriftum að þá virkuðu kerfin ekki nema að það ríkti innbyrðis skilningur á milli allra aðila um virkni kerfisins og hvernig mismunandi hlutar þeirra ynnu saman. Þetta gilti ekki aðeins fyrir smíði og uppsetningu heldur var líka mikilvægt að skapa gagnvirk samskipti milli hönnuða, iðnaðarmanna og þeirra sem síðan tækju við rekstri kerfanna.
Það hefur verið gæfa félagsins að það hefur alltaf verið fyrir hendi öflugur hópur félaga tilbúinn að leggja því lið. Þótt oftast hafi verið úr takmörkuðum efnum að spila þá hefur tekist að halda úti fjölbreyttu starfi. Fræðslufundir með sýningum og útgáfu fundarefnis í fræðsluritum hafa hægt og bítandi byggt upp þekkingarforða sem spannar allflest svið lagnamála og er ómetanleg stoð fyrir þá sem koma nýir að málum. Fagráðin hafa verið mikilvægur vettvangur til þess að koma þeim málum sem skapast hafa vegna hugsanlegra mistaka í traustan farveg, þar sem aðilar máls hafa getað sett traust sitt á að fjallað væri um málin af bestu fáanlegri þekkingu og sanngirni.
Annar mikilvægur þáttur í starfseminni hefur verið að veita einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum viðurkenningu fyrir verk sem staðið hefur verið að með lofsverðum hætti. Þessar verðlaunaveitingar hafa byggt á vandaðri umfjöllun og hafa unnið sér réttmætan sess sem vitnisburður um vönduð og markviss vinnubrögð. Þetta er einnig gott dæmi um það hvernig bæta má verklag með jákvæðum skilaboðum til þeirra sem gera vel.
Þau mál sem nú brenna á lagnamönnum snúa annars vegar að því að koma að þeim málum sem við teljum mikilvægust við endurskoðun byggingarreglugerðar og hins vegar þarf að efla menntun á sviði lagna á öllum námsstigum. Við þurfum líka að finna leiðir til þess að Lagnakerfamiðstöðin sem félagið kom á stofn nýtist í þessum tilgangi. Ráðherra hafði því miður ekki tök á að vera með okkur hér í dag sem var skaði vegna þess að nú höfðum við möguleika á að ræða við ráðherra mannvirkjamála og menntamála í einni og sömu persónu og alls óvíst að sú staða komi upp næsta aldarfjórðung.
Lagnamenn og aðrir gestir. Óska okkur öllum til hamingju með gott starf í aldarfjórðung með sérstöku þakklæti til framkvæmdastjórans okkar Kristjáns Ottóssonar og Þóru konu hans, sem hafa dregið vagninn í allan þennan tíma af einstakri ósérhlífni. |